fimmtudagur, mars 29, 2007

gott að eiga systur...

...sem heldur manni við efnið!
Var að eyða tíma í vitleysu og ráfa um netið og rakst á þessa grein. Varð svolítið æst og langaði til að svara henni en er ekki með moggablogg og gat þess vegna ekki svarað... geri það bara hér í staðinn... hvort sem ykkur líkar betur eða verr... og þótt greinarhöfundur fái aldrei að vita mitt álit :)
Fyrir ykkur sem nennið ekki að lesa greinina, þá talar Ingi Karlsson um yfirvofandi lögbann á reykingar á veitinga- og kaffihúsum. Hann er s.s. mótfallinn banninu og finnst vera að ganga á rétt þeirra 30% sem reykja...
Ég er góð í stærðfræði (þó ég segi sjálf frá ;)) og reiknast svo til að það það séu þá 70% sem ekki reykja. Hvað þá með rétt þeirra 70% að geta farið út að skemmta sér/út að borða/ fá sér kaffibolla án þess að verða fyrir óbeinum reykingum? 70% eru í fyrsta lagi meira en 30% (góð í stærðfræði sko).
Segjum sem svo að 70% þjóðarinnar vildi að lögreglan klæddist rauðum búningum frekar en svörtum en engar breytingar yrðu á klæðnaði lögreglunnar. Ég myndi ekkert pirra mig yfir því þó ég tilheyrði þessum 70%. Að klæðast svörtum búningum gæti kannski talist "sjónmengandi" en það hefur hins vegar engin áhrif á heilsufar mitt að vera í návist svartklæddra lögregluþjóna. Það er enginn sem hefur ofnæmi fyrir svörtum lit og engin lykt eða önnur óþægindi sitja eftir í hárinu á mér eða fötunum mínum daginn eftir að ég hef umgengist eða séð svartklæddan lögregluþjón.
Að verða fyrir óbeinum reykingum er hins vegar skaðlegt heilsu minni. Það veldur líkamlegum óþægindum að þurfa að vistast í tóbakstreyk. Sumir gætu sagt að ég kjósi það sjálf að vera í tóbaksreyk. Jú, ég get valið um að vera heima hjá mér, því þar hef ég vald til að ákveða hvort reykt er eða ekki, og fara aldrei á kaffihús eða veitingastað eða aðra opinbera staði þar sem reykingar eru leyfðar svo þau 30% sem reykja verði ekki fyrir óþægindum. Ég held að ég þurfi nú ekki að færa rök fyri því af hverju það er ósanngjörn jafna.
Eins og kannski flestir vita fyrir (og aðrir eftir að hafa lesið þetta) þá reyki ég ekki. Ég þekki hins vegar, þó ótrúlegt megi virðast, fólk sem reykir og þrátt fyrir að ég skilji ekki og muni líklegast aldrei skilja af hverju fólk byrjar að reykja (sér pistill út af fyrir sig), þá þekki ég fullt af reykingarfólki sem ég virði fullkomlega og lít upp til (þó ég sé reyndar það fordómafull að fólk missi yfirleitt nokkur prik þegar ég kemst að því að það reykir... æ það er nú kannski óþarfi að hafa þetta með...). Ég bý jú í Svíþjóð þar sem reykingar hafa verið bannaðar frá því ég flutti hingað. Það reykingafólk sem ég þekki og býr hér er ekki ósátt við reykingabannið. Það er kannski óþarfi að segja að það sé himinlifandi en það er engu að síður ekki ósátt. Reykingabannið hefur orðið til þess að þau hafa minnkað reykingarnar þar sem það er ekki beinlínis spennandi að fara út í roki og rigningu að anda að sér tjöru...
Það er varla nokkur manneskja sem ekki veit um skaðsemi reykinga! Ég kýs að "álykta" að fólk sem komið er til vits og ára og reykir, vilji gjarnan hætta því þó það kjósi að reykja (þá væntanlega vegna þess að það er erfitt að hætta að reykja og fólk treysti sér ekki í baráttuna án þess að ég viti svosem nokkuð um það). Með reykingabanninu gefst þeim hins vegar gott tækifæri til að minnka við sig reykingarnar. Fólk sem er að berjast við að hætta að reykja losnar líka við að þurfa að horfa upp á aðra reykja í kring um sig innandyra o.s.frv.
Þetta er nú orðin meiri langlokan og ég gæti haldið áfram að elta skottið á mér heillengi í viðbót. Ég hefði hins vegar alveg getað látið það duga að segja þetta: Að banna reykingar á opinberum stöðum gengur kannski á rétt 30% þjóðarinnar en að leyfa þær gengur á rétt 70% þjóðarinnar.
Og hana nú.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home